top of page

Ókeypis orðabækur á netinu og ráð við orðaleit

Erfitt getur reynst að finna góðar orðabækur á netinu, sérstaklega frítt. Úrvalið er mismikið eftir því hvernig orðabókum leitað er að, t.d. má finna meira af ensk-íslenskum orðabókum en samheitaorðabókum fyrir íslensku. Snara.is býður mikið úrval orðabóka og alls yfir tvær milljónir uppflettiorða en þar kostar áskrift 648 kr. á mánuði. Hér á eftir fer stutt samantekt á orðabókum sem nota má frítt.


Ensk-íslensk orðabók og íslensk-ensk orðabók

Oft getur Google Translate komið fólki á sporið en aðrar ensk-íslenskar orðabækur sem vert er að nefna eru Hugtakasafn þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins og Íðorðabankinn. Hugtakasafnið hefur að geyma fjölda orða á sviði laga og stjórnsýslu auk orða tengdum alþjóðastofnunum og ESB. Safnið inniheldur meira en 82.000 íðorð og orðasambönd og stækkar jafnt og þétt. Efnissviðin eru mörg og má nefna sem dæmi milliríkjasamninga, neytendamál, flutninga, menntun og menningu. Hugtakasafnið reyndist mér oft vel í háskólanámi í stjórnmálafræði á sínum tíma.


Orðabankinn getur gagnast námsmönnum, kennurum, þýðendum og fjölmiðlafólki. Hann er samsettur úr orðasöfnum fyrir ýmis ólík fræðisvið, t.d. læknisfræði, landafræði, stjörnufræði og málfræði.

Enskar orðabækur

Af enskum orðabókum eru þær helstu Dictionary.com, Merriam Webster og The Free Dictionary. Oft má líka finna skilgreiningar enskra orða beint á Google leitarvélinni með því að gúggla einfaldlega orðið ásamt orðinu „definition“ eða „meaning“ eins og sjá má hér fyrir orðið „scatter“:


Skilgreiningar orða


Íslensk-dönsk orðabók og aðrar orðabækur Norðurlandamála

ISLEX er íslensk-dönsk, íslensk-sænsk og íslensk-norsk orðabók sem nota má frítt. Fyrrnefndur orðabanki er líka með þýðingum af og á norðurlandamálin. Frasar.net býður leit að íslenskum og dönskum orðasamböndum og einnig má hlusta á orðasamböndin á dönsku.

Den Danske Ordbog (DDO) er stór og mjög gagnleg orðabók fyrir dönsku með skýringum á dönsku. Sproget.dk er önnur dönsk-dönsk orðabók sem óhætt er að mæla með. Á vef Norðurlandaráðs má finna ágæta samantekt á öðrum orðabókum Norðurlandamála.


Íslensk orðabók á netinu

Málið.is er yfirgripsmikil leitarsíða sem leitar í sjö orðabókum (gagnasöfnum): Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Stafsetningarorðabókinni, Íslenskri nútímamálsorðabók, Íslensku orðaneti, Málfarsbankanum, Íðorðabankanum og Íslenskri orðsifjabók. Ég sló inn orðið „fleygur“ og fékk niðurstöður úr fimm gagnasöfnum.


Að finna þýðingar orða með Google leit

Ef annað bregst má stundum finna þýðingar orða með því að nota stillingar á Google leitarvélinni, t.d. að leita bara á lénum með endinguna .is. Þetta er gert með því að slá inn site:.is:


Þýðingar með Google leit

Í dæminu að ofan vildi ég leita á .is síðum að íslensku hugtaki fyrir ROI sem er ensk skammstöfun fyrir Return on Investment. Niðurstöður leitarinnar sýna að fólk hefur notað hugtakið arðsemi á íslensku fyrir ROI.


Í myndbandinu hér að neðan má sjá annað dæmi þar sem ég reyni að finna íslenska þýðingu á orðinu meme á Snöru án árangurs en tekst síðan að finna hugmyndir að þýðingum með Google leit:




Ábendingar um fleiri orðabækur eru vel þegnar.



Comments


bottom of page